11.3.2010 | 02:14
Hann Baldur minn.
Hann hefur ekki alltaf átt 7 dagana sæla þessi elska. Fyrsta árinu eyddi hann í urr, rymj,rugg, grátur, ælur og brjóstagjöf. Hann hló ekki fyrr en rúmlega 6 mánaða...honum fannst þetta EKKERT fyndið.
Árinu var eytt í labb á milli lækna, prófanir og mis vel gerðar mælingar og sem fyrr enduðum við á Íslandi í rörum þegar hann var 8 mánaða....bakflæðið og ristilkramparnir sem öngruðu hann voru þó áfram ómeðhöndlaðir.
Eyrnarbólgur héldu áfram allt annað árið en þá var annað uppi á teningnum...þá höfðum við Einar eyrnalanga...svo pattinn varð ekki að finna stöðugt til í eyrunum né hafa drulluna lekandi úr þeim í tíma og ótíma. Eftir því sem leið á annað árið hættu krampakendu ælurnar og svefninn fór loks að lagast....urr rymj og ótrúlegt rugg hélt þó eitthvað áfram sem og tregða við að borða mat. Málþroski guttans var farin að vekja eftirtekt því eitthvað þótti uppá vanta. Sökudólgurinn líklegast tíður vökvi við hljóðhimnur og vanlíðan.
Á þriðja ári á sér stað sá örlagaríki atburður að litli maðurinn eyddi tíma að heiman og hitti lækni þar, sá læknir taldi eðlilegt að það væri stanslaus straumur af greftri og tilheyrandi úr eyrum drengins og var það mikið verra öðru megin. Þetta álit læknisins, sem hitti barnið nokkrum sinnum á meðan á dvölinni að heiman stóð, varð til þess að svæsin eyrnabólga grasseraði í höfðinu á honum í rúmann mánuð. Þegar drengur skyldi sóttur heim var það hið fyrsta verk að þrífa hann allann um eyru og niður eftir hálsi því hann lyktaði af gamalli, ónýtri, kæstri skötu....og var með gröftinn um sig allann. Hann var drifinn til eyrnalæknis sem skildi ekki histeríuna í kringum ástandið og sendi hann pjakkinn heim með skömmum. Næsti eyrnalæknir fékkst til þess að skola úr eyrunum (og kúgaðist á meðan) en vildi ekkert gera frekar.
Þá var ekki nema eitt að gera, fara heim til Einars eyrnalanga og biðja um hjálp...sem auðvitað fékkst á nóinu. Strákur var auðvitað drifin í aðgerð, nefkirtlar sem hefðu kæft fullorðinn mann rifnir úr og rör sett í handónýtar hljóðhimnur. Himnurnar voru báðar illa öróttar og kalkaðar og lítið hægt að gera til þess að laga þar eitthvað til. Þarna fékk ég að vita að varanlegur skaði hefði orðið á heyrn barnsins sökum aðgerðarleysis danskra lækna. Hversu mikill skaðinn væri yrði að koma í ljós. Nú þyrfti að gefa þyrfti stráknum tíma til þess að læra á talfærin í sér uppá nýtt eftir að hafa misbeitt þeim í tæp 3 ár sökum risavxina nefkirtla sem hindruðu allt loftflæði í innra andliti.
Fjórða árið rennur upp og ekki líst mönnum á talandann á gutta. Hann tjáir sig eins og barn um 18 -20 mánaða en ekki 3 ára+. Gerðar eru æfingar eftir leiðbeiningum talmeinafræðings og mikið lesið og talað og sungið en allt kemur fyrir ekki, áhyggjurnar vilja ekki víkja þó svo að leikskólastarfsmenn vilji kenna tvítyngi um. Gefin reynsla af tvítyngdum börnum, sem er þó nokkur, sagði þó að hér væri ekki um neitt sem því gæti tengst, að ræða.
Það er drengnum þó til happs að vera búsettur í Odense á þessum tíma þar sem gnótt er góðra lækna. Eyrnalæknir hefur verið valin af kostgæfni fyrir fjölskylduna og er staðan nú borin undir hann. Sá tekur í fyrsta lagi fjölskyldusögu og sjúkrasögu barnsins vel niður og skoðar hann svo og mælir í bak og fyrir. Því næst falla þessi örlagaríku orð " I´m afraid we need to bring in the big guns on this one" og með þeim orðum erum við send á það sem samsvarar Heyrnar og talmeinastöð ríkisins í Danmörku....þangað fer fólk til þess að fá heyrnartæki.
Baldur að verða 4 ára í sumar og hann, sem fæddist með fullkomna heyrn, er alvarlega heyrnarskertur sökum vanhirðu danskra lækna. Það verður að segjast eins og er að það læðist um reiði í brjóstinu á mér. Reiði og sorg. Og það verður líka að viðurkennast að það er hálf kaldhæðnislegt að þessi stóru, útstæðu mjúku eyru skuli ekki virka sem skyldi.
Næsta skref er að mæta í Horeklinikken á Háskólasjúkrahúsinu í Odense og láta fagmenn um að meta skaðann og fá rétta aðstoð fyrir drenginn. Víst er það sorglegt að ástandið sé svona en það er líka frábært að þessi bolti sé komin af stað og að það séu til heyrnarmælingar og heyrnartæki fyrir svona litla menn til þess að létta þeim lífið.
Nú má jafnvel horfa frammá það að ormurinn læri að tala þannig að fleiri en fjölskyldan skilji hann og að óánægja hans í samskiptum við aðra víki
Um bloggið
Á vit ævintýranna....enn á ný :O)
Eldri færslur
Tenglar
Mínir tenglar
- Andlitsbók
- Aurinn
- Fyrsti útskriftarhópur Keilis á Facebook
- Hjallarnir
- íslenski hesturinn í DK
- Íslenskir hryðjuverkamenn
- Keilisfrumkvöðlarnir
- Peace one Day - friðardagurinn 21. sept.
- The girl effect
Bloggarar
- Begga
- Dagmar Sønder
- Dagný
- Dóran
- Edda Kósk
- Elín Árna
- Ella í rassi
- Eybjór
- Gimpið
- GoggaLára
- Guðný Harpa
- Helga Rún
- Korkusíðan
- Kristín fænka
- Linda Sønder
- Lúvísan
- Ómar og Árdís
- Robbinn
- Sigga sønder
- Úlli
Myndasíður
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er agalegt, vonandi gengur vel með framhaldið.
Hrafnhildur Kristjansdottir (IP-tala skráð) 11.3.2010 kl. 05:55
Úff..
En gott að það eru góðir hlutir að gerast núna loksins!
Gangi ykkur vel
Hulda Rún (IP-tala skráð) 11.3.2010 kl. 17:33
Hæ sæta mín, datt í hug að kíkja á síðuna þína. :)
Mikið er leiðinlegt að lesa þetta, ég sem hélt að heilbrigðiskerfið í DK væri með þeim bestu, oh was I wrong..
Reyndar hef ég sjálf lent í "gati" í kerfinu þegar mér leið svakalega illa, en þeir voru fljótir að laga það og lögðu mig inn. Það sem stuðaði mig þó allra mest var að þeir flokka fólk eftir hverfum, ekki eftir einkennum eða erfiðleikum. Því "lá" ég inni á geðdeild á Bispebjerg með ölkum, eiturlyfjasjúklingum og fólki sem var að taka sér "pásu" frá neyslu sinni.
Við vorum að mig minnir aðeins fjögur í minni þáverandi stöðu og öll á aldrinum 23-28. Restin voru fertugir, fimmtugir, og eins og ég tók fram fyrr, alkar og dópistar.
Hugsa sér að heilbrigðiskerfið í Danmörku á að kallast gott! En þarna var ég langt langt niðri eftir erfiðan skilnað m.m. og þurfti að horfa upp á að fólkið á deildinni unnu eins og meðferðaraðilar en hugsuðu ekki um okkur fáu sem vorum þarna á réttri deild, áttum ekki heima á meðferðarstofnun eins og hinir.
Eftir þetta hef ég hugsað mikið um hversu "gott" þetta heilbrigðiskerfi þeirra er í raun og veru.
Það er með ólíkindum, að miðað við hversu gott þetta "heimilislæknakerfi" þeirra virkar, (já og ekki virkar) að börn skuli virkilega vera send heim sárþjáð og ekki skoðuð í bak og fyrir líkt og á Íslandi þar sem við þurfum að borga fúlgur fjár fyrir sama dæmið. Þetta sama kerfi sem DK hefur var reynt á Íslandi fyrir þónokkrum árum síðan en virkaði ekki þar sem við erum svo fá og þetta núverandi kerfi tekið upp aftur. Sem greinilega sýnir að það er það sem virkar.
Læknar í DK þurfa ekki nema að renna sygesikringbevisnum þínum í gegn og þá hafa þeir fengið launin sín fyrir þann klukkutímann, og þeim getur verið algjörlega sama um sjúklinginn og rest.
Ég vona að elsku Baldur þinn fái þá allrabestu meðferð sem hann getur úr þessu og hjálp til þess að heyra og tala.
Það kæmi mér ekki heldur á óvart ef þú/Baldur ættuð rétt á einhverjum bótum vegna þessa, þetta eru hrein og klár læknamistök!
Kæmpe knuz og kram!
Dísa Lange (IP-tala skráð) 12.3.2010 kl. 02:57
vonandi gengur þetta bara allt hratt og vel fyrir sig og töffarinn verði kominn með heyrn innan tíðar
harpa frænka á Ísafirði (IP-tala skráð) 14.3.2010 kl. 10:44
Hæ Birna, var bara að kíkja hvort þú værir með eitthvað nýtt blogg. Verð að kommenta á kókósbollu myndina af Baldri, hann er algjört krútt á þessari mynd :) Hann er það svo sem alltaf, mér fannst þetta bara svo flott mynd :)
Kveðja frá Lyngby.
Hrafnhildur Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 20.3.2010 kl. 12:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.