Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Spennan í hámarki!

Hér var vaknað klukkan hálf sex þeinkjú verí möts!

"mamma..er ekki skólinn að byrja, erum við ekki að verða of sein..þú átt eftir að klæða Baldur" og þar fram eftir götunum og þar sem við sofum öll í einu herbergi leið ekki á löngu þangað til fjör var komið í allann mannskapinn...frábært...

 

Svo þegar klukkan varð 6 játaði ég mig sigraða og skreið á lappir ofan af minni yndislegu vindsæng sem er bæ ðe bæ alveg að rústa á mér bakinu og öxlunum, og kveikti á Latabæ í tölvunni (er að upplifa nýfundna ást á Latabæ) og henti mér í sturtu. Þar hafði ég verið í einar 6 mínútur þegar það var dinglað! klukkan 6 um morgun!

Þar fyrir utan stóð húsvörður kollegíisins...Benni fór út með pappírsrusl deginum áður og hafði ekki sett það í réttann endurvinnslugám...og þetta fannst honum AFAR mikilvægt að benda okkur á KLUKKAN 6 að morgni.  Ég er fegin hvað hann varð skömmustulegur þegar ég kom til dyra rennblaut með handklæði á stærð við þvottapoka utan um mig með börnin flækt í fótleggjunum á mér...en það er eins gott að venjast þessu...danskara verður það ekki hehehe.

Svo núna er Latibær búin, allir búnir að borða..nema mamman og næst á dagskrá er að finna stuttbuxur, boli og skólatöskur á mannskapinn og moka liðinu á dyr...núna er klukkan korter yfir 7....ætli við verðum ekki komin út rétt fyrir 9 LoL  nei ókei, þó það taki tímann sinn að moka þremur herramönnum út og reyna að líta ekki út eins og undin tuska með niðurgang á meðan þá munum við örugglega púlla það á svona 45 mínútum.

 

Over end át for ná....það kemur alveg ööööörugglega skýrsla um gang skólamála í kveld.


Síðasti Sumarfrídagur drengjanna.

...Og þá gekk á með skúrum.

Við byrjuðum daginn á hópkúri...alveg er það ótrúlegt hvað maður getur slasast á því að kúra hjá  svona litlu mjúku kríli eins og honum Baldri. Hann er auðvitað alveg grafkyrr...að meðaltali í 2 sek í einu og hreyfir sinn litla feita kropp með tilheyrandi umstangi af miklum eldmóði þess á milli hehe. Við Eyþór og Benni flissuðum bara yfir þessum litla klaufabárði...sem sagði okkur svo alltaf að "úa" (kúra) og ýtti hausunum á okkur niður á koddana á milli þess sem hann hjólaði í okkur hehehe.

Við höfðum okkur svo á fætur og fórum í hjólatúr út í Sønderborg slot, þar eyddum við alveg 3 klukkutímum í að skoða kastalann uppúr og niðrúr og fræðast um hluti eins og hertogadæmin slésvik/Holstein, heimstyrjaldirnar og iðnað liðinna alda.  Mest spennandi fannst strákunum þó dýflissan, kjallararnir og Hitler.

Það kom mér mest á óvart hversu áhugasamir drengirnir voru og hversu úthaldsmikill pattinn var.

Þaðan hjóluðum við í hitamollu í gegnum gamla bæinn, og miðbæinn þar sem allt var auðvitað lokað því það er sunnudagur. Við enduðum svo á Jensen´s Bøfhus í snemmbúnum kvöldverði með ís og alle grier í eftirmat.

 

Hjólatúrinn heim var helst til vætusamur...við lákum inn um dyrnar blaut frá toppi til táar og drifum allt liðið í heita sturtu.

Kvöldinu verður svo eytt í lestur, smá tiltekt, skólaundirbúning fyrir morgundaginn (hin sígildi madpakki), menn eru vel spenntir fyrir morgundeginum...og það er mamman óneitanlega líka Grin


Tribute.

Þá er maðurinn farinn...Ðö men...spurning hvort það sé óviðeigandi að heita nafninu hans á msn....eða hvort það haldi ekki bara minningunni á lífi..?

Allir að taka sér mínútu í að hugsa um Bernie MAC, ef þið vitið ekki hver hann er þá getið þið bara hugsað um the next best thing.....MIG......písát.


Fimmtudagur til frægðar?

Klárum þessa bölvuðu ferðasögu nú bara í eitt skipti fyrir öll. Á fimmtudagsmorguninn vorum við mætt út í strætó 10 mín yfir 8 að morgni. Leiðinn lá niður í ráðhús enn eina ferðina til þess að skrá okkur til heimilis til þess að geta skráð börnin í skóla. Það gekk vonum framar, við rötuðum og allt  Cool Þaðan lá leiðin upp á bókasafn til þess að komast á netið og láta umheiminn vita að við værum á lífi og garfast í bankamálum og svoleiðis skemmtilegheitum...það er fátt meira afslappandi en að ganga inn á bókasöfn...bara gamlar konur vinna á bókasöfnum...þar er alltaf ró og friður...NEMA þegar fermetrinn mætir! Honum fannst ekki töff að þurfa að sitja í kerru á meðan mútta gamla bara gerði eitthvað annað! Prinsinum var illa misboðið og að venju lét hann það duglega í ljós. Ég held að allir á bókasafninu hafi verið fegnir eftir 10 mínuturnar þegar við fórum út Whistling 

Frá bókasafninu lá leiðin í Sonderskovskolen, sem er skóli Eyþórs og Benna. Þar var okkur vel tekið og eyddum við þar rúmum klukkutíma í spjall við skólatjórann, útfyllingar eyðublaða og svo skoðuðum við líka stofurnar þeirra og skóladagheimilið. Við sömdum um það að strákarnir fengju að koma í heimsókn á næsta dag og vera í 4 tíma eða svo. 

Þaðan lá svo leiðin leikskólaskrifstofuna, þó ekki án þess að stoppa í búð og kaupa hafrakex og eplasafa og setjast á stein og grillast ámeðan við snæddum þetta lítilrædi. Leikskólaskrifstofan er úti í rassgati...alveg lengst og við vorum gangandi,  það var þarna nógu heitt til þess að steikja egg á enninu á mér, börnin voru hálfber og við öll að kafna. Við þurftum að labba bæinn á enda og fundum loksins þessa skitnu skrifstofu. Það sem bjargaði geðheilsunni þá var hvað við fengum frábæra þjónustu á þessari skrifstofu. Konan sá okkur þarna, rennandi sveitt, dauðuppgefin með sofandi sveitt, bert kríli í kerru og hún bara tók okkur að sér. Spurði hvenær ég væri að fara í skólann og þyrfti þá pössun, ég sagði henni það og þá spurði hún hvort að pabbinn gæti ekki hlaupið undir bagga sem hann getur ekki að svo stöddu og þá stækkuðu augun í henni um svona 3/4. Án gríns, ef ég hefði diffrað í henni augun hefði ég fengið út augu í eðlilegri stærð. 

Konan talaði upp frá því svo mikið um dugnað minn og hugrekki að vera ein með öll þessi börn í útlöndum og fara í nám að ég labbaði út alveg hálfum meter hærri hahaha.

Ég dró liðið þaðan upp í strætó og niður í bæ, þaðan sem við gengum yfir vindubrúnna góðu og yfir í Alsion. Þar átti ég orð við konu í stúdentaráðgjöfinni og svo fengum við okkur að borða í kantínunni.....sem er DÝR!  Loks var förinni heitið heim...heimförin tók okkur rúmlega 3 tíma með skemmtistoppum um allan bæ.  Það er orðið að hefð hérna hjá okkur að hrynja örþreytt inn úr dyrunum að kvöldi, borða, sturta og hátta svo. Svo fær mamman smá meðvitundarleysis tíma útaf fyrir sig áður en hún skríður í kúr líka.

 

Föstudeginum er hægt að skeyta hérna við. Við mættum aftur í strætó 10 mín yfir 8 og fórum niður í bæ til að kaupa hjól fyrir kvendið, það var skundað með pattann á háhest og bræðurnir reiddu hjólin sín. Hjólið var valið og keypt og keyptur var á það barnastóll um leið. Þaðan hjóluðum við á skóladagheimilið, eða SFO eins og það er kallað hér, og skildi ég hina fræknu ferðamenn eftir þar við mikla gleði. 

Við Baldur náðum að áorka ævintýralega mörgu á þessum 4 tímum sem við höfðum til 2 bara tvö saman. Við fórum í heimsókn á leikskólann hans Baldurs í góðann klukkutíma, fórum niður í ráðhús enn einu sinni, á bókasafnið til þess að komast á netið og var mamman vopnuð gúmmíböngsum í þetta skiptið til þess að halda litla manninum góðum á kantinum Police  Farið var í þrjá banka og tvær skrifstofur til viðbótar ásamt matvöruverslun áður en drengirnir voru sóttir og slúttaði dagurinn með því að ég fékk tilboð um ÍBÚÐ!  Sem ég og þáði, med det samme, með þökkum alveg hægri vinstri. 

Eitthvað lið var svo hér úti að grilla um kveldið og settist ég með þeim í smá stund yfir spjalli...afar danskt...afar mikið hygge Cool 

 

Úr sögu þessari hefur verið sleppt daglegum ferðum í netto, Fotex, kvickly og aðrar búðir til þess að selflytja heim í kerrunni góðu, það nauðsynlegasta til heimilisins....eins og rúgbrauð og kæfu, kornflex og mjólk, klósettpappír, uppþvottalög, handklæð,i borðtusku og svoleiðis. Hafa búðarferðir þessar verið misskemmtilegar eftir þreytustigi manna og móður í hvert skipti fyrir sig.

Dagarnir hafa verið fullir af uppgötvunum, gleði, pirringi, þreytu, klístri, bið, burði en fyrst og fremst húmor sem er það sem fleytir okkur í gegnWizard

 


Annar hluti - gengin upp að hnjám.

Jú enn einn dagurinn liðinn og við bráðum búin að vera í höllinni hans Sverris í viku. Deginum var eytt í litlum bæ sem heitir Grásteinn upp á íslensku því þar var miðaldamarkaður í gangi með tilheyrandi riddurum og skemmtilegheitum. Fætur gengnir af sem fyrri daginn.....og okkur tókst loksins að kaupa klósettbursta...hefði ekki trúað því hvað maður saknar klósettburstans þegar maður hefur hann ekki.

 

Annars ætla ég að halda áfram með ferðasöguna góðu. Við vöknuðum á farfuglaheimilinu uppúr 7 leitinu á miðvikudagsmorgninum...sólinn skein í heiði, eða bara trjátoppum þar sem lítið er um heiðar hér um slóðir Whistling  og það var STEIK inni í litlaherberginu okkar. við klæddum okkur, bjuggum um rúmin og komum okkur svo í morgunmatinn sem byrjaði klukkan 8. Við þurftum auðvitað aðeins að klappa geitunum og skoða kanínurnar á leiðinni en komumst þó fyrir rest þrátt fyrir að fermetrinn (Baldur) hafi slórað á leiðinni. Að morgunmat loknum fylltist kvendið eldmóði að venju og lagði skauta undir fót og skautaði þessa 5-6 km niður á Skovvej þar sem skrifstofa kollegíanna er...litlu gæjarnir voru á hjólum og í kerru og þetta var frábær túr, fyrir utan kannski hvað það var steikjandi heitt og mollulegt. 

Á skrifstofuna komum við rétt fyrir 9 og sáum þá á hurðinni að það opnaði ekki fyrr en 11....frábært. Allir enn á ný sveittir, þvalir og þyrstir og langt í næstu búð. Ég dró upp kortið góða og við hjóluðum niður í bæ...fórum í ráðhúsið og skráðum okkur ...eða ætluðum að skrá okkur en þá rann upp fyrir mér að við bjuggum hvergi...jessssssss, þá getur maður ekki skráð sig, fyllti þó út umsókn um leikskóla fyrir pattann og svo gáfum við skít í þetta bara og fórum á kaffihús og fengum okkur hádegismat í miðbænum áður en við lögðum af stað niður á Skovvej aftur. Þar mættu okkur indæliskvensur og við fengum lykilinn af íbúðinni hans Sverris vandkvæðalaust. 

Þá tók við skref tvö af farangursflutningum...hjóla niður á Borgmester Andersensvej, skilja hjólin og kerruna eftir og taka svo leigara uppá hostel, þar var mannskapurinn skilin eftir í bílnum meðan mamman hljóp þúsund og eina ferð inní herbergi að sækja allt helvítis draslið. Leigubílstjórinn boraði samviskusamlega í nefið á meðan og létti það mér burðinn alveg gífurlega LoL

Á kollegíinu tók við burður dauðans þar sem þessi frábæra íbúð er INNST af þeim öllum og voru farnar margar margar margar ferðir. Einhvernveginn tókst mér að taka uppúr öllum þessum töskum og koma öllu fyrir á vísum stöðum, pumpa upp tværeinfaldar vindsængur og eina tvöfalda með HANDPUMPU og búa um okkur öll áður en ég gaf liðinu að borða og baðaði mannskapinn, enda ekki vanþörf á eftir heitasta dag í heiminum og púl dauðans á öllum vígstöðvum. kl 20 þegar allir voru dottnir útaf í bólunum sínum settist ég.....á gólfið.....með dönsk stelpublöð..sem eru best! og drakk eina litla dós af Tuborg classic...SNILLD!  Bakið í hönk, hendurnar dottnar af, iljarnar logsvíðandi en frábært að vera komin með liðið á vísan stað þar sem maður verður kyrr í allavega smá stund.

Dagur  2 í DK endaði á langþráðiri sturtu...eftir að haf fengið nokkur hjartaáföll þegar "meðleigjendurnir" a.k.a. köngulær, létu sjá sig og þeim var skolað út í sjó af mikilli grimmd. Ég lést úr þreytu milli 10 og 11 það kvöldið.

 


Mætt á svæðið - ferðasaga í mörgum hlutum.

Já hin fjögur fræknu eru mætt til hinar fögru Danmerkur enn á ný. Þriðjudagurinn 5. ágúst var tekinn með stæl með því að vakna uppúr 4 leitinu og moka börnum og buru út í bíl...nánar tiltekið Sibba bíl...með fröken Annýju undir stýri. Frökenin þurfti að fara tvær ferðir, þvílíkur var farangurinn sem stóðinu fylgdi en það var ekki mikið mál fyrir mína frekar en annað og var okkur skilað með sóma út á hjara veraldar...Leifsstöð.

Þar tók við biðin endalausa þar sem okkur tókst ekki að vera á undan rútunni...myndskreytið endilega...ein kona með ein tvær farangurskerrur, eina barnakerru með ákveðnu barni í og tvö barnareiðhjól sem stýrt er af börnum... þetta var skemmtileg röð. Þegar við vorum loksins komin að öryggishliðunum uppgötvast að einn miðinn er horfin...þá fór kvendið af stað með einn á mjöðminni og eitt í sitthvorri skálminni að leita miðann uppi. fljótlega áttaði ég mig á því að það væri vitleysa og fór bara að tjékk inn borðinu og fékk nýjann...þá tók við meiri bið...og núna til að komast í gegnum öryggishliðið. 

Þessi bið hefði ekki verið svo slæm ef að ekki hefði verið fyrir það að Baldri var illa misboðið þegar þarna var komið og stóð á orginu eins og aðeins tveggja ára guttum er einum lagið allan tímann sem við stóðum í röðinni, og ekki gat kvendið, pinklum hlaðið, tekið hann upp, svo hann fékk að baula í buxnaskálminni góðu. 

Þar sem þessar raðir tóku tímann sinn vorum við orðun knöpp á þessu og keyptum okkur þessvegna bara hressingu á hlaupum og rassaköstuðumst svo út að hliði 268 eða svo og vorum seinustu farþegar um borð...hinum til ómældrar ánægju að sjáfsögðuCool 

flugið var...tja flug, hvað getur maður sagt. þeir sem sofnuðu hefðu ekki þurft þess og sá sem hefði þurft þess var vakandi og vel virkur allann tímann. Pollýanna kom þó allavega auga á það að enginn gat að minnsta kosti sofnað úr leiðindum Wink

Vá hvað þessi saga er að verða löng.....en það er bara gaman.

 Við lendingu tók við kúkableyjugræ og fóðrun ungmenna og svo var haldið niður að sækja farangur...farangur....farangur...the word has lost all meaning. Ég sótti HLUSSURNAR sem við vorum með..réði varla við þær ein svo ég blikkaði sætu strákana meðal farþeganna og fékk þá til að hjálpa mér. Svo varð ég þeirrar lukku aðnjótandi að ég hitti vinkonu mömmu hennar Monu vinkonu...hún var að flytja til Dk þenna dag líka. Hún taldi mig ofan af því að fara í lestina til Hovedbanegården með 8 misstórar töskur, 2 barnareiðhjól, tvo fótbolta, stóra barnakerru og 3 börn (wonderwoman var audda viss um að rúlla því upp eins og öðru)...og massa þetta á kæruleysinu og taka leigubíl. 

 Rakinn tók á móti okkur eins og þykkur heimilislegur veggur þegar við strögluðum útaf Kastrup flugvelli og hrundum inn í leigubíl. Ímyndið ykkur bara gott fólk...allir klístraðir og sveittir, þreyttir og syfjaðir, svangir og úrillir...leigubílstjórinn varð þó þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að heyra nokkur íslensk lög sem kvendið raulaði með hjálp ormasúpunnar, svona til að halda geðheilsunni réttu megin við strikið og bar þar hann Sigga sem var úti hæst af öllum.

Þar sem sú ákvörðun hafði verið tekin í leigubílnum að taka ekki 13:30 lestina suðrettir höfðum við smá tíma svo við bölsóttuðumst með töskunar og hjólin niður í farangursgeymsluna á aðallestarstöðinni, keyptum okkur miða í lestina og fórum svo á röltið á Vesterbrogade...Vesterbrogade..fáið þið líka tár í augun og sting í brjóstið við að segja þetta....? Eða er ég með rugluna?

Þegar ég stóð í ysnum og þysnum á miðri lestarstöðinni, heyrandi allskonar tungumál í kringum mig og finnandi allskonar lyktir...fannst mér ég vera komin HEIM...svo röltum við út á Vesterbrogade..með allt fullt af hjólafólki...kæfandi hita og raka...ráðhústorgið framundan og Tivoli á kantinum fylltist brjóstið bara af hlýju og gleði og mér var litið á litlu sveittu andlitin sitthvoru megin við kerruna sem horfðu upp til mín...skælbrosandi..upplifandi eitthvað svipað og ég var að upplifa.  HEIMKOMU!   Svo til að drepa rómantík augnabliksins...eða hreinlega toppa hana segir frumburðurinn...."mamma...eigum við að fara á stóra?"  þá kviknaði ljós í augum litla bró...og mamman bráðnaði, auðvitað fórum við á stóra. Stóri er stóri McDonald´s staðurinn á Vesterbrogade sem er með STÓRA leikvellinum. hehe börnin muna að sjálfsögðu það mikilvægasta. Svo leituðum við að okkar turni í sjónlínunni...kirkjuturninum sem stendur við Prinsessegade sem er gatan sem við bjuggum við, fundum hann og þá var komin tími á lest suður á bóginn.

Lest suður á bóginn já....held ég skrifi EKKERT nema 4 tíma lestarferð..8 töskur..2 barnareiðhjól..tveir fótboltar....ein fyrirferðarmikil kerra..3 drengir..EIN MAMMA!  plús að við þurftum að bera allt dótaríið frá einum enda lestarinnar til annarrar...þar á meðal lyfta kerrunni upp yfir sætin því öðruvísi passaði hún hreinlega ekki...þá notaði kvendið aftur leggina góðu og brosið bjarta og fékk sætan dana til að hjálpa til við lyftingarnar. Segið svo að útlit skipti ekki máli Devil

Touch Down i Sønderborg rétt um hálf 8 að kvöldi. Hraustur lestarstövðarstarfsmaður sá aumur á konunni einu með allt dótið og börnin og hjálpaði okkur að leigubílastoppistöðinni. þar þurftum við tvo bíla til þess að fara með okkur og allt okkar hafurtask á farfuglaheimilið...ÞAÐ VAR æðislegt.

Konan sem tók á móti okkur þar tók okkur eins og við værum flóttamenn sem hefðum ekki fengið að borða í margar vikur eins og segir í Elíasi. Hún kom okkur fyrir og gaf okkur éting, sýndi okkur svo svæðið sem var svo danskt að það var æði. Allstaðar var gert ráð fyrir börnum...Risa leiksvæði með alskonar tækjum, dýragarður þar sem máti klappa dýrunum, mini golfvöllur og indiánabálstaður.

Þarna í úrhverfi suðurborgar við landamæri þýskalands hrundi öll familían í svefn laust fyrir klukkan 10, eftir langan og strangan dag voru allir klístraðir og uppgefnir og meira en til í að kúra í dönskum rúmum...þó þau séu alltaf rök.

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Á vit ævintýranna....enn á ný :O)

Höfundur

Birna Eik Benediktsdóttir
Fædd og uppalin Kópavogsmær sem þrátt fyrir flakk um víða veröld hefur ræturnar kirfilega festar á Íslandinu góða. Móðir, dóttir, systir, frænka, vinkona, nemi og síðast ekki ekki síst óþrjótandi uppspretta seiglu og jákvæðni

Nýjustu myndir

  • jón hjá tannsa
  • DSC_0490[1]
  • IMG_1841
  • SDC11485
  • stóru

Nýjustu myndböndin

Jón í baði

bjútífeis að syngja fatlafól

Jón Egill tæpra 11 vikna að gera grín að mér :O)

Jón Egill 5 vikna kjaftaskur

Jón Egill eins mánaðar.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 2893

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband